Viljayfirlýsing um kaup á vetnisbílum: MAN hTGX

Arnar Fréttir Leave a Comment

Skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á landi

Fimm íslensk fyrirtæki hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á vetnisknúnum MAN hTGX vöruflutningabílum. Um er að ræða dráttarbíla af stærstu gerð, 44/49 tonn. Orka náttúrunnar (ON) framleiðir á Hellisheiði vetni til að knýja bílana og Blær Íslenska vetnisfélagið dreifir því. Með þessu sameinast framleiðandi og innflytjandi bílanna, viðskiptavinir og fyrirtækin sem framleiða og dreifa orkugjafanum um eitt stærsta orkuskiptaverkefni á Íslandi.

Unnið hefur verið að samningum um innflutning bílanna og viljayfirlýsingu um kaup á þeim undir verkstjórn Íslenskrar NýOrku í um 18 mánuði, en Íslensk NýOrka var stofnuð 1999 í tengslum við viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um að stefna að nýtingu endurnýjanlegra orkubera til samgangna.

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku: 

„Hér er um að ræða eitt stærsta einstaka orkuskiptaverkefnið í sögu þjóðarinnar. Eldsneytisnotkun 20 dráttarbíla jafnast á við ríflega þúsund fólksbíla og áætla má árlegan sparnað af bruna 700 þúsund lítra af dísilolíu. Með innflutningi bílanna og kaupum á þeim er stórt skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á Íslandi. Næstu skref eru að tryggja bæði framboð og samkeppnishæft verð á vetni til nota í samgöngum þannig að full orkuskipti geti átt sér stað.“

Skrifað var undir viljayfirlýsinguna um kaup á bifreiðum í Hellisheiðarvirkjun þar sem vetnisframleiðsla ON fer fram, mánudaginn 29. apríl (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson). Kraftur er umboðsaðili MAN á Íslandi, en fyrirtækin sem kaupa fyrstu bílana eru BM Vallá, Colas, MS, Samskip,og Terra. Í tengslum við kaupin á bílunum byggir Blær nýja vetnisstöð sem veitt getur bæði vörubílum og fólksbílum þjónustu.

Kraftur hefur tryggt sér til afhendingar 20 bíla, til afhendingar á næsta og þarnæsta ári. Fyrstu bílarnir eru væntanlegir vorið 2025. Vonir standa til að fleiri fyrirtæki kjósi að taka í notkun losunarfría vörubíla af stærstu gerð. Á árinu 2025 eru bílarnir aðeins fáanlegir í svokallaðri 6:2=2 útgáfu (8 hjóla) en 6:4 (10 hjóla) trukkurinn verður til afhendingar frá upphafi árs 2026.  

Friedrich Baumann, yfirmaður sölu- og viðskiptamannalausna  í framkvæmdastjórn MAN Truck & Bus:

„Við leggjum áfram áherslu á rafmagnsbíla til að draga úr útblæstri frá vegaflutningum. Kostir þeirra í samanburði við aðra vélakosti eru augljósir vegna orkunýtingar og kostnaðar við orku og rekstur. Vörubílar knúnir vetnisbrennsluvélum eru hins vegar hentug viðbót fyrir sértæka notkun og markaði. Með því að byggja á þekktri tækni komumst við snemma inn á markaðinn og ýtum undir uppbyggingu vetnisinnviða. Núlllosunarkostir okkar hafa nú fengið aðlaðandi viðbót með hTGX.“

Björn Erlingsson framkvæmdastjóri Krafts:

„Við hjá Krafti, umboðsaðila MAN á Íslandi, erum ákaflega stolt og ánægð með að MAN bílaverksmiðjurnar hafi valið okkur og þar með Ísland til að taka þátt í þessu frábæra verkefni. Okkur vitanlega er þetta í fyrsta sinn sem svo stór bílaframleiðandi velur Ísland í svona tímamótaverkefni, sem getur haft svo mikil áhrif á orkuskiptin. Við viljum þakka Jóni Birni Skúlasyni hjá Íslenskri NýOrku sérstaklega fyrir hans ötula starf við að koma þessu á koppinn.“

Gísli Þór Arnarson framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa:

„Áhersla á sjálfbærni er innbyggð í kjarnastefnu Samskipa og afskaplega ánægjulegt að vera í hópi þeirra fyrirtækja sem taka þetta mikilvæga skref í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á landi. Til að árangur náist þarf að tryggja bæði framboð og samkeppnishæfni orkugjafans við jarðefnaeldsneyti og leggjumst við á árar með viðleitni til þess með því að taka þessar bifreiðar í notkun.“

Guðmundur Ingi Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blævar:

„Við hjá Blæ höfum yfir tuttugu ára reynslu af rekstri vetnisstöðva í gegnum vetnisverkefni Orkunnar og Skeljungs. Við fögnum því að með þessu verkefni eru stigin risavaxinn skref í notkun vetnis í landssamgöngum sem mun án nokkurs vafa hafa ruðningsáhrif á notkun vetnis á næstu árum.“

Hólmfríður Haraldsdóttir, sérfræðingur í orkumiðlun hjá Orku náttúrunnar:

„Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í orkuskiptunum og fyrirtækið er meðvitað um að orkuskiptin þurfi að fara fram á fleiri en einn máta. Orka náttúrunnar er eini vetnisframleiðandi Íslands. Vetnisstöðin VON sem er staðsett við Hellisheiðarvirkjun, hefur frá árinu 2020 framleitt vetni sem nýtt er í samgöngur. Afkastageta VONar er um 100 tonn af vetni á ári sem er nægilegt magn til að anna um það bil 800 vetnisfólksbifreiðum á ári eða um fimm til sjö vetnistrukkum. Orka náttúrunnar fagnar þessu verkefni og þessu mikilvæga skrefi í átt að aukinni notkunar á vetni í samgöngum á Íslandi. Við sjáum fyrir okkur að VON verði vonandi góður stökkpallur fyrir áframhaldandi orkuskipti með vetni.“

Pálmi Vilhjálmsson forstjóri Mjólkursamsölunnar, MS: 

„MS leggur höfuðáherslu á verndun náttúru og sjálfbærni í sínum rekstri og vill vera í fararbroddi í orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega og ómengandi orkugjafa. MS fagnar því að eiga nú þess kost að knýja flutningabíla sína með vetni sem framleitt er úr endurnýjanlegri íslenskri orku og veldur ekki mengun við notkun.“

Sigurður Ólafsson, viðskiptaþróunarstjóri Linde: 

Linde er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu við framleiðslu, geymslu og dreifingu vetnis. Við erum afar stolt af því að geta lagt okkar af mörkum til orkuskiptanna og stutt Ísland við að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum sínum.“

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas:

„Colas hefur lengi verið þeirrar skoðunar að orkuskiptin verði ekki leyst eingöngu með rafmagni og rafhlöðum, heldur blöndu lausna þar sem vetni spilar mikilvægt hlutverk. Vetni hentar sérlega vel í rekstri þungra vinnuvéla og dráttarbíla af þyngstu gerð. Það er því með mikilli ánægju sem við leggjum af stað í þessa vegferð að taka inn dráttarbíl sem ekur á vetni. Verkefnið er hluti af hinni stóru mynd sem Colas hefur dregið upp af kolefnislausum rekstri og stutt af móðurfélagi okkar og verður fylgst með því af áhuga um alla Evrópu.“

Valgeir Baldursson, forstjóri Terra:

„Okkur er einstök ánægja að taka þátt í þessu verkefni, þar sem eitt af mikilvægustu verkefnum okkar hjá Terra er að hraða orkuskiptum bílaflota okkar og minnka þar með kolefnisspor félagsins. Við sjáum mikil tækifæri í vetnisknúnum bílum til framtíðar sem þátt í að ná sjálfbærnimarkmiðum Terra.“

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins:

„Við erum afar ánægð með að taka þátt í þessu tímamótaverkefni og stíga þar með mikilvægt skref í átt að orkuskiptum í bíla- og tækjaflota BM Vallár. Þessi ákvörðun er samofin stefnu okkar í umhverfismálum og markmiði um kolefnishlutleysi. Nú þegar höfum við náð tuttugu prósenta lækkun á kolefnisspori okkar og munu vetnisknúnir dráttarbílar með endurnýjanlegri orku leika stórt hlutverk í átt að kolefnishlutleysi.“

MAN tilkynnti um framleiðslu hTGX vetnisdráttarbifreiðanna í byrjun apríl. Um er að ræða bíla með brunahreyfli sem ganga fyrir vetni og öll umhirða og viðhald því sambærilegt við bifreiðar sem fyrirtæki hafa fyrir í rekstri. Í fyrstu verða framleiddir að minnsta kosti 200 bílar sem seldir verða í Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Íslandi, auk valdra markaða utan Evrópu.

Drægni þessara bíla er allt að 600 kílómetrar sem gerir þá samkeppnishæfari við hefðbundna vörubíla knúna dísil. Vörubílar af þessari stærðargráðu eru með þeim ökutækjum sem nota mest eldsneyti og aka langar vegalengdir á ári hverju. Orkuskipti í þungaflutningum hafa því gríðarleg áhrif og vega þungt í samdrætti losunar á Íslandi.

 

MAN stækkar flota sinn með hreinum orkugjöfum

Til að byrja með er framleiðslan takmörkuð við 200 eintök og verður afhent viðskiptavinum í Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Íslandi ásamt völdum löndum utan Evrópu árið 2025.

Takmarkað upplag af vetnisútfærslu áætluð árið 2025

  • Í upphafi eru 200 bílar áætlaðir fyrir valda markaði
  • hTGX hentar sérstaklega vel við vissar aðstæður og notkun
  • Nýja gerðin bætist við rafmagnsflotann

MAN Truck & Bus verður fyrsti evrópski vörubílaframleiðandinn til að setja á markað útfærslu með vetnisvél. Í upphafi er fyrirhugað að um 200 bílar verði afhentir viðskiptavinum í Þýskalandi, Hollandi, Noregi, Íslandi og völdum löndum utan Evrópu, á næsta ári, 2025. „MAN hTGX eins og bíllinn verður kallaður býður upp á aðra lausn í losunarlausri drifrás sem hentar vel í sérstakri notkun, svo sem til að flytja þungavöru – eins og í byggingarvinnu, tankflutninga eða timburflutninga. hTGX getur einnig verið umhverfisvænn valkostur til móts við rafbíla, til notkunar á svæðum þar sem ekki er nægjanlega öflugir innviðir þegar kemur að hleðslumöguleikum eða fyrir markaði þar sem nægilegt vetni er þegar til staðar. MAN mun afhenda viðskiptavinum rafdrifna útfærslu af vörubíl í fyrsta skipti árið 2024 og munu auka framleiðslu á þeim árið 2025. MAN hefur verið leiðandi á markaði í rafknúnum strætóum og borgarrútum í Evrópu síðan 2023.

„Við munum áfram einbeita okkur að rafknúnum farartækjum til að draga úr kolefnislosun í vöruflutningum. Í augnablikinu eru kostir þeirra skýrir um fram aðra driflínukosti hvað varðar orkunýtingu og rekstrar- og orkukostnað. Hins vegar eru vörubílar knúnir vetnisvélum gagnleg viðbót fyrir sérstaka notkun og vissa markaði. Við gerum ráð fyrir að við getum sem best þjónað langflestum þörfum og óskum viðskiptavina okkar með rafbílum okkar. Fyrir sérstaka notkun er vetnisvélin, eða í framtíðinni, efnarafallinn, verið hentug viðbót. Vetnisvélin H45 er byggð á hinni sannreyndu D38 dísilvél sem er framleidd í véla og rafgeymaverksmiðju MAN í Nürnberg. Að nota tækni sem er kunnugleg gerir okkur kleift að komast á þennan markað á frumstigi sínu og gefur okkur því afgerandi hvata í uppbyggingu vetnisinnviða. Með hTGX höfum við nú bætt aðlaðandi vöru við okkar losunarlausa vöruúrval“ segir Friedrich Baumann, stjórnarmaður hjá MAN Truck & Bus en hann er einnig ábyrgur fyrir sölu- og viðskiptavinalausnum.

Vetnisbíllinn hentar sérstaklega vel í sérstök flutningsverk sem krefjast ákveðinnar öxlauppsetningar eða þar sem ekki er pláss fyrir stóra rafgeyma í grindinni vegna t.d yfirbyggingar. MAN hTGX býður upp á mikla burðargetu og hámarksdrægna allt að 600km í fyrstu útfærslu, sem er 6×2 og 6×4. H45 vetnisvélin skilar 383kW eða 520hö og 2500Nm togi við 900-1300 snúninga á mínútu. Bein innspýting vetnis tryggir sérstaklega gott viðbragð við inngjöf. Með vetni þjappað niður í 700 bör (CG H2) og tank upp á 56kg er hægt að fylla á bílinn á innan við 15 mínútum. Með minna en 1g CO2/tkm mun MAN hTGX uppfylla skilyrðin sem „losunarlaust ökutæki“ samkvæmt nýju fyrirhuguðu CO2-löggjöf ESB.

Dr Frederik Zohm stjórnarmaður á rannsóknar og þróunarsviði, bætir við: „Nýju CO2 reglugerðirnar frá ESB munu flokka vörubíla með vetnisvélum sem losunarlaust ökutæki“. Þetta þýðir að slík farartæki munu stuðla að fullu að CO2 markmiðum okkar, sem einnig opnar dyrnar fyrir þessa nýju línu sem viðbót við rafbílana. Á sama tíma, allt eftir löndum, njóta viðskiptavinir okkar tolla- og skattalækkana, til dæmis. Hjá MAN Nürnberg höfum við nýjustu vélartækni og áratuga reynslu í notkun vetnis sem eldsneytis. Við erum að nýta þessa þekkingu er við kynnum alvöru MAN með MAN hTGX. Nýi vetnisbíllinn er byggður á hinni traustu og þaulreyndu TG línu og vekur athygli fyrir háklassa gæði og einfalt viðhald. Við munum halda áfram að rannsaka efnarafalinn sem byggir á rafhlöðutækni og vetni. H2 eldsneytistæknin er einni í undirbúningi hjá MAN. Hins vegar munu líða nokkur ár þar til tæknin verður raunverulega tilbúin til sölu og samkeppnishæf.“

Eins og með innleiðingu rafbíla leggur MAN ekki aðeins áherslu á þróun og framleiðslu nýstárlegra og áreiðanlegra farartækja í samræmi við „Simplifying Business“ fullyrðingu sína, heldur styður MAN viðskiptavini með alhliða þjónustu- og ráðgjafatilboðum þegar skipt er úr dísilbílum yfir í raf- eða vetnisbíla.

MAN og vetni – löng reynslusaga

MAN á sér langa sögu þegar kemur að vetnisaflgjöfum, en fyrirtækið hefur staðið að rannsóknum og þróun tengdri slíkum driflínum í áratugi. MAN Truck & Bus kynnti fyrstu vetnisknúnu rútuna á Hannover-sýningunni árið 1996: SL 202 borgarrútan var knúin jarðgasvél sem hafði verið breytt fyrir vetnisnotkun. Eftir sýninguna í Hannover lauk rútan þriggja ársfjórðunga prófunartímabili í Erlangen, þar sem eknir voru 13.000 kílómetrar og 60.000 farþegar fluttir. Rútan kom loks til München árið 1997 og var tekin í reglubundna þjónustu þar. Árið 1998 fóru svo þrír liðvagnar í notkun á flugvelli í München og voru þar í notkun til 2008, og 14 vetnisknúnar rútur til viðbótar á árunum 2006 til 2009.

Til viðbótar við fyrri og nýlegri reynslu sína af atvinnubílum, er MAN nú einnig að þróa og prófa vetnisvélina fyrir MAN Engines deildina í margvíslegum notkunarmöguleikum á og utan vega sem á vatni. Það hentar til dæmis vel fyrir sérstök farartæki, svo sem snjótæki, leiðum þar sem ekki er hægt að byggja upp rafhleðsluinnviði og svo gröfur og krana. Notkun í varma- og orkuverum er einnig skynsamleg, sérstaklega ef hægt er að nýta þann varma sem myndast til viðbótar við rafmagnið.

 

Mynd í

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *